Bjarni Ólafsson AK er á landleið til Neskaupstaðar með 940 tonn af makríl sem fékkst í Smugunni. Skipið mun væntanlega koma til hafnar klukkan sjö í kvöld og þá mun vinnsla hefjast í fiskiðjuverinu en nú hefur ekkert verið framleitt þar í um tvo sólarhringa. Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst hvort veiði skipanna væri jafn misjöfn og áður. “Já, það er óhætt að segja það. Makríllinn poppar upp og hverfur fyrirvaralaust og er býsna erfiður viðureignar. Fiskurinn sést illa á tækjunum og birtist jafnvel ekki fyrr en hann er svona 50-100 metra frá bátnum. Það sést ekkert fyrr en menn eru bara komnir ofan í þetta. Veiðin er ótrúlega misjöfn hjá bátunum þó þeir séu að toga hlið við hlið. Sumir hitta í torfur en aðrir ekki, þannig að það er einskær heppni sem ræður niðurstöðunni. Makríllinn sem við erum með núna er betri fiskur en hefur verið. Hann er stinnari og ætti að vera betri fyrir vinnsluna. Fiskurinn er blandaður en meðalvigtin er 430-460 grömm. Eins og kunnugt er hafa skipin sem veiða fyrir Síldarvinnsluna samstarf og á hverjum tíma tekur eitt skip afla fjögurra skipa. Í þessari veiðiferð erum við að mestu með eigin afla en þó tókum við smáslatta frá Berki og Margréti. Ég held að þetta samstarf skipanna sé mjög skynsamlegt. Það tryggir að afli komi ferskari til vinnslu og það kemur einnig í veg fyrir að skip sé að sigla langan veg með lítinn afla. Þetta samstarf hefur að mínu mati ótvíræða kosti,“ segir Runólfur.