Gullver NS gerði góðan túr. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun að aflokinni veiðiferð. Aflinn var 112 tonn, langmest þorskur og ýsa. Steinþór Hálfdanarson var skipstjóri í túrnum og er hann ánægður með aflann. “Við fengum þetta mest á Fætinum og í Reyðarfjarðardýpinu síðustu tvo dagana. Það fékkst sannast sagna lítið annars staðar. Við byrjuðum túrinn með því að fara á Punginn og á Verkamannabankann í leit að karfa en þeir gáfu lítið. Karfinn er okkur býsna erfiður. Veiðiferðin var að öðru leyti tíðindalaus nema hvað að það þurfti að skipta um kælivatnsdælu við aðalvélina og það tafði okkur frá veiðum um tíma. Það er búinn að vera skógur af skipum hérna fyrir austan að undanförnu. Það hefur aflast best af þorski hérna og svo hefur veður verið leiðinlegt vestur af landinu. Okkur er í reynd ekkert alltof vel við allan þennan skipafjölda hér fyrir austan landið. Við viljum helst hafa bleiðurnar okkar í friði,” segir Steinþór.

Gullver mun væntanlega halda til veiða á ný eftir hádegi á morgun.