Gullver NS kom til Seyðisfjarðar sl. nótt og landar þar 20 tonnum af fiski sem fékkst í togararallinu sem skipið tekur þátt í. Nú er rallið um það bil hálfnað og ræddi heimasíðan við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra. „Nú erum við búnir að vera í um það bil viku í rallinu og höfum lokið við að toga á 73 stöðvum af 151 sem eru á því svæði sem við eigum að sinna en það er nefnt norðaustursvæði. Við byrjuðum á að toga á syðsta hluta svæðisins og vorum komnir norður á Héraðsflóa þegar haldið var í land. Við gerum ráð fyrir að fara út klukkan tvö eftir hádegið á morgun og þá verður byrjað á Digranesflakinu og síðan haldið áfram vestur undir Kolbeinsey. Þetta hefur gengið vel hingað til og við höfum verið heppnir með veður. Til dæmis höfum við aldrei þurft að stoppa. Við eigum líklega viku eftir í rallinu en það fer að sjálfsögðu eftir veðri hve langan tíma þetta tekur. Norður frá á okkar svæði er styttra á milli togstöðvanna og unnt að taka fleiri hol á dag,“ segir Steinþór.