Togarinn Gullver kom til heimahafnar á Seyðisfirði síðdegis á föstudag og hafði þá lokið þátttöku í hinu svonefnda togararalli eða marsralli. Heimasíðan ræddi við Steinþór Hálfdanarson skipstjóra sem var með Gullver síðari hluta rallsins en Þórhallur Jónsson var með skipið í fyrri hlutanum. Hlutverk Gullvers í rallinu var að toga á um 150 stöðvum frá Þórsbanka og vestur fyrir Grímsey en það svæði er nefnt norðaustursvæði. Auk togara tóku hafrannsóknaskip þátt í rallinu og var togað á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið. Steinþór sagði að síðari hluti rallsins hjá Gullver hefði gengið vel. „Þessi síðari hluti tók níu daga og í honum var togað á 80 stöðvum. Alls tók rallið átján daga hjá Gullver. Það var alls ekkert sérstakt veður í seinni hlutanum; grimmdarfrost allan tímann og allt gaddfreðið. Aflinn í seinni hlutanum var 33 tonn en hann var um 12 tonn í fyrri hlutanum. Þetta eru samtals um 45 tonn sem ég held að sé vel yfir meðaltali á norðaustursvæðinu. Mig minnir að Bjartur hafi einu sinni fengið yfir 50 tonn í ralli hér á þessu svæði en Bjartur tók þátt í ralli í hvorki meira né minna en tuttugu og sex ár,“ segir Steinþór.
Togararall hefur farið fram á vegum Hafrannsóknastofnunar á hverju ári frá árinu 1985. Rallið er ávallt framkvæmt með sama hætti. Togað er á sömu stöðum hvert ár í þeim tilgangi að afla upplýsinga um helstu nytjastofna við landið og reyndar eru fleiri þættir kannaðir.
Þegar Gullver kom til Seyðisfjarðar var aflanum úr síðari hluta rallsins landað, veiðarfærin frá Hafrannsóknastofnun sett á land og tekin olía. Síðan verða eigin veiðarfæri skipsins tekin um borð og væntanlega haldið til veiða um hádegi á morgun.