Áhöfnin á Bjarti NK gengur tryggilega frá tundurduflinu. Ljósm. Bjarni Már HafsteinssonÁhöfnin á Bjarti NK gengur tryggilega frá tundurduflinu. Ljósm. Bjarni Már HafsteinssonBjartur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi og hafði þá lokið togararallinu þetta árið. Bjartur togaði á alls 184 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Hornafirði að Eyjafirði. Bjarni Hafsteinsson stýrimaður sagði að rallið hefði gengið vel en þó hefði það tekið lengri tíma en áætlað var vegna óhagstæðs veðurs. Meiri afli mun hafa fengist í þessu ralli en ralli undanfarinna ára en Hafrannsóknastofnun nýtir togararallið til að leggja mat á stofnstærð botnfiska við landið.
 
Hinn 18. mars sl. fékk Bjartur tundurdufl í vörpuna þar sem hann var að toga í Rósagarðinum suðaustur af landinu. Landhelgisgæslunni var tilkynnt um duflið og fékk áhöfnin leiðbeiningar um meðferð þess um borð. Tveir menn frá gæslunni tóku síðan  á móti skipinu þegar það kom til hafnar í gærkvöldi og gerðu þeir duflið óvirkt og brenndu það síðan.
 
Bjartur heldur til veiða síðar í dag og er væntanlegur til löndunar á fimmtudag.