Undanfarin ár hefur Síldarvinnslan í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðar Matís lagt stund á rannsóknir á sviði meðferðar og nýtingu fiskfangs. Mörg þessara rannsóknaverkefna hafa verið unnin í samvinnu við önnur sjávarútvegsfyrirtæki, tæknifyrirtæki í sjávarútvegi og háskóla. Reyndar eru mörg verkefnanna doktorsverkefni, flest við innlenda háskóla en einnig við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.
Niðurstöður þessara verkefna hafa verið birtar í formi ritrýndra vísindagreina eða doktorsritgerða og nýtast þær öllum sem vilja, jafnt opinberum stofnunum sem fyrirtækjum. Síldarvinnslan hefur sótt um styrki til nokkurra verkefna sem unnið hefur verið að. Þeir styrkir sem veittir hafa verið hafa að mestu verið nýttir sem mótframlag á móti doktorsstyrkjum eða öðrum slíkum styrkjum ásamt því að þeir hafa verið nýttir til að greiða fyrir mælingar og aðra þjónustu sem Matís veitir, en Matís er reyndar eina fyrirtækið á landinu sem unnt er að leita til í því sambandi.
Síldarvinnslan er þátttakandi í þremur verkefnum sem fengu styrki úr Matvælasjóði nú í haust. Öll verkefnin snúast um breytingar og framþróun í framleiðslu fiskimjöls. Tvö þeirra eru á sviði þráavarnar í mjöli. Annað þeirra tekur til skoðunar hvort unnt sé að nýta afurðir þörungavinnslu sem þráavarnarefnis en hitt er unnið í samvinnu við Skinney-Þinganes og Ísfélagið og snýst um hitamyndun og þránun í mjöli. Þriðja verkefnið er samstarfsverkefni Síldarvinnslunnar og Matís um breytingar á vinnsluferli í fiskimjölsverksmiðjum með áherslu á fiskprótein í sem hreinustu formi.
Það er gríðarlega mikilvægt að sjávarútvegsfyrirtæki og menntasamfélagið hafi samvinnu um verkefni á borð við þessi. Fyrri verkefni hafa þegar skilað miklum árangri og hafa verið fiskiðnaðinum til framdráttar og styrkt stöðu hans.
Hér á heimasíðunni mun verða gerð nánari grein fyrir verkefnunum þremur þegar niðurstöður liggja fyrir.