Stefán Þór Eysteinsson leiðbeinir nemendum Sjávarútvegsskólans í Matís í Neskaupstað. Ljósm. Elvar Ingi ÞorsteinssonStefán Þór Eysteinsson leiðbeinir nemendum Sjávarútvegsskólans í Matís í Neskaupstað. Ljósm. Elvar Ingi Þorsteinsson
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Stefán Þór Eysteinsson, sérfræðingur hjá Matís í Neskaupstað, er um þessar mundir að hefja rannsóknir á rauðátu. Rannsóknaverkefnið er jafnframt doktorsverkefni Stefáns. Tilgangur verkefnisins er margþættur; í fyrsta lagi verður skaðsemi rauðátu við manneldisvinnslu uppsjávartegunda metin og eins  verður kannað hvernig best er að stýra vinnslunni og geyma afurðirnar þegar áta er í fiskinum. Einnig verður lögð áhersla á að rannsaka áhrif rauðátu á mjöl- og lýsisvinnslu. Loks verða eiginleikar átunnar skoðaðir og kannað hvort og hvernig megi nýta hana. Norðmenn hafa verið að veiða rauðátu í tilraunaskyni og hafa þeir unnið úr henni olíu til manneldis. Olían hefur reynst hafa ýmsa jákvæða eiginleika, meðal annars er hún rík af omega 3 fitusýrum.
 
Að sögn Stefáns mun hráefni til verkefnisins fást í Neskaupstað og á Höfn en Síldarvinnslan og Skinney-Þinganes taka virkan þátt í því. Að auki munu Háskóli Íslands, Hafrannsóknastofnun, Matís og DTU-aqua eiga aðild að verkefninu, en DTU-aqua er danskur háskóli. Stefán upplýsir að gert sé ráð fyrir að verkefnið taki að lágmarki þrjú ár og kostnaðaráætlun fyrir það hljóði upp á 52 milljónir króna.
 
Stefán hefur fengið góða styrki til verkefnisins en stærsti styrkurinn er svonefndur Sigurjónsstyrkur úr Rannsóknasjóði síldarútvegsins. Sá styrkur er fimm milljónir króna á ári í þrjú ár eða samtals 15 milljónir. Þessi styrkur er kenndur við Norðfirðinginn Sigurjón Arason, prófessor og yfirverkfræðing hjá Matís, en Sigurjón hefur haft forystu um ýmsar rannsóknir og þróun á sviði vinnslu sjávarafurða sl. 30 ár, sem skilað hafa miklum ábata fyrir íslenskt samfélag.
 
Stefán segir að rauðáturannsóknirnar séu afar spennandi verkefni  og hann voni svo sannarlega að niðurstöðurnar hjálpi til við að ráða við þau vandamál sem átan hefur í för með sér við vinnslu á uppsjávarfiski.