Grænlensku loðnuskipin Polar Amaroq og Polar Ammassak héldu til loðnuveiða frá Neskaupstað á Þorláksmessu. Polar Amaroq hóf þegar veiðar en Polar Ammassak þurfti að fara í land til að láta sinna smávægilegum lagfæringum og að því loknu hélt skipið til veiða á ný. Heimasíðan ræddi í morgun við Ólaf Sigurðsson, stýrimann á Polar Amaroq og spurði hvernig veiðin hefði gengið. „Þetta er reitingur. Það er eins og verið hefur lítið að fá yfir nóttina þrátt fyrir ágætis lóð. Yfir daginn fæst hins vegar þokkalegur afli. Við erum komnir með 600 tonn í þremur holum. Auðvitað hefði maður viljað hafa þetta meira en þetta er í lagi. Við höfum tröllatrú að þetta eigi eftir að aukast fljótlega. Veðrið hefur verið hreint frábært frá því að við fórum út og vonandi verður það þannig áfram. Við munum halda áfram veiðum um áramótin ásamt Polar Ammassak sem er á fyrsta holi hérna skammt frá okkur. Menn eru sannfærðir um að það sé hörkuloðnuvertíð framundan og það verður gaman að fylgjast með þegar allur flotinn kemur til veiða eftir áramótin. Þá verður unnt að leita almennilega á stærra svæði,“ segir Ólafur.