Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar á mánudagsmorgun að lokinni ágætri veiðiferð. Aflinn var um 105 tonn, mest karfi, ýsa og þorskur. Skipstjóri í veiðiferðinni var Steinþór Hálfdanarason og ræddi heimasíðan við hann. “Þetta var ágætur túr. Það aflaðist vel og fiskurinn er hinn fínasti. Enn og aftur leituðum við að ufsa en fundum ekki. Eini ufsinn sem fæst kemur sem meðafli og þetta er bara einn og einn fiskur. Við veiddum á okkar heimaslóðum ef svo má segja en það er í Berufjarðarál, Hvalbakshalli og á Papagrunni. Það var rennandi blíða dag eftir dag og menn brattir í blíðunni. Við förum aftur út á morgun. Nú er kvótastaðan orðin þannig að það er einungis farinn einn túr á viku. Það er takmarkað eftir af kvótanum nema auðvitað af ufsa, en hann felur sig,” segir Steinþór.
Drjúgur hluti af afla Gullvers fer til vinnslu í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.