Systurskipin Vestmannaey VE og Bergey VE í Norðfjarðarhöfn í morgun.
Ljósm. Smári Geirsson

Eins og greint hefur verið frá kom upp eldur í ísfisktogaranum Vestmannaey VE austur af landinu í gær þegar skipið var á landleið til Neskaupstaðar með fullfermi. Heimasíðan bað Birgi Þór Sverrisson skipstjóra að lýsa því sem gerðist. Hér á eftir fer frásögn hans: „Það mun hafa verið um kl. 15.30 í gær að við fundum mikið högg koma á skipið. Ég hélt fyrst að við hefðum keyrt á drumb en það kom strax í ljós að svo var ekki. Það hafði orðið sprenging í vélarúminu; sveifarásinn hafði spýst út úr blokk annarrar vélarinnar og mikill eldur var laus. Vélstjórinn hljóp niður í vélarúmið og sá strax mikinn reyk. Hann tók slökkvitæki og byrjaði að sprauta úr því en sá þegar að það dygði ekki og þá var vélarúminu lokað. Eldvarnakerfið um borð og neyðaráætlun fyrir skipið var þegar virkjuð. Allri áhöfninni var komið á mótstað aftan við brúna, loftinntökum niður í vélarúm lokað, drepið á vélarúmsblásurum og eldsneytisdælur stöðvaðar. Síðan var skotið á með slökkvikerfi í vélarúminu þegar búið var að tryggja að súrefni kæmist hvergi að. Við höfðum strax samband við landhelgisgæsluna og einnig slökkviliðsstjóra í Reykjavík og fengum þar góð ráð en við töldum fljótlega að eldurinn væri slökktur. Strax og menn gerðu sér grein fyrir hvað var að gerast var haft samband við Bergey VE sem var að veiðum skammt frá okkur. Þeir voru beðnir um að hífa og koma strax til okkar og þeir voru komnir 40 mínútum síðar. Strax var farið að koma dráttartaug á milli skipanna og tókst það farsællega. Síðan lagði Bergey af stað til Neskaupstaðar með okkur í togi um sexleytið í gær. Haft var samband við slökkvilið Fjarðabyggðar og sendu þeir strax tvo menn með hafnsögubátnum Vetti til móts við okkur. Þeir voru með hitamyndavél og sýndi hún að líklega væri enginn eldur logandi í vélarúminu en mikill hiti. Vöttur fylgdi okkur að landi en til hafnar í Neskaupstað komu skipin um kl. 3 í nótt. Þegar vélarúmið var opnað kom í ljós að eldurinn var kulnaður þannig að einungis þurfti að reykræsta.

Ég tel að snögg og góð viðbrögð hafi komið í veg fyrir að þarna færi verr. Áhöfnin stóð sig frábærlega og var yfirveguð allan tímann. Ég vil koma á framfæri góðum þökkum til Bergeyjarmanna fyrir alla aðstoðina og eins vil ég þakka landhelgisgæslunni, slökkviliði Fjarðabyggðar og áhöfninni á Vetti fyrir veitta aðstoð. Ég tel að fagmannleg viðbrögð hafi þarna skipt öllu máli og áhöfnin byggir á góðum grunni frá Slysavarnaskóla sjómanna. Fyrir liggur að tjón á vélinni er mikið en aðalvélar skipsins eru tvær. Nú verður strax farið að huga að viðgerð,“ segir Birgir Þór.