Það gengur vel að veiða kolmunnann suðvestur af Rockall. Færeyska skipið Götunes landaði 2.800 tonnum í Neskaupstað á sunnudag og Beitir NK er væntanlegur þangað í dag með 3.000 tonn. Börkur NK er síðan á leið til Seyðisfjarðar með 3.150 tonn. Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, í morgun og spurði fyrst hvort menn væru ekki sáttir við veiðina. „Jú, blessaður vertu það var rífandi gangur í þessu. Við fengum þessi 3.000 tonn í sex holum þannig að það voru 500 tonn að jafnaði í holi. Við stoppuðum einungis í 48 tíma á miðunum og það var blíðuveður allan tímann. Veiðarnar fara þannig fram að það er dregið í lóði í nokkrar mínútur og upp í einn til tvo klukkutíma. Það fer eftir þéttleika torfanna hve lengi er dregið. Síðan er dýpkað á trollinu eða því lyft og dregið í engum fiski í eina tvo tíma til að ná lofti úr aflanum í trollinu. Ef trollið er híft beint upp kemur það upp með gríðarlegum látum og þá reynir svo sannarlega á veiðarfærin. Menn eru afar ánægðir með þessa Rockall-túra enda einstaklega gott fiskirí. Það eru ekki mjög mörg skip á miðunum þar sem við vorum. Þarna eru Færeyingar og Norðmenn auk okkar Íslendinganna. Það eru um 630 mílur frá veiðisvæðinu til Neskaupstaðar þannig að það fer drjúgur tími í siglingar þegar veitt er á þessum slóðum,“ segir Tómas.