Togararall 2016. Staðan 3. mars. Ljósmynd af heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.
Bjartur NK hélt í sitt 26. rall hinn 25. febrúar sl. Fjögur skip sinna rallinu að Bjarti meðtöldum og er honum ætlað að toga á 183 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Eyjafirði að Gerpistotu og síðan einnig á Þórsbanka. Heimasíðan sló á þráðinn til Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra á Bjarti og spurðist fyrir um hvernig gengi. „Það er rífandi gangur í þessu hjá okkur og við erum nú að kasta í togstöð númer 72 af þessum 183. Við lönduðum 45 tonnum í gær á Dalvík en veiðin hefur verið óvenju mikil hingað til miðað við fyrri röll. Það er búið að vera blíðuveður allan tímann og það á sinn þátt í því hve vel gengur. Við reiknum með að landa á ný nk. sunnudag en þá áformum við að vera búnir að toga á 25 stöðvum til viðbótar og þá verðum við hálfnaðir. Það ætti að geta gengið því við höfum verið að ná allt upp í 12 stöðvum á dag. Það er alltaf ánægjulegt þegar aflast vel í röllunum og við sjáum að það er loðna í fiski út af Skjálfanda, við Kolbeinsey og á Sléttugrunni. Þá höfum við orðið varir við loðnupeðrur allvíða,“ sagði Steinþór.
Fylgjast má með gangi rallsins hjá Bjarti og öðrum skipum sem taka þátt í rallinu á vefslóðinni http://www.hafro.is/skip/skip.html