Þegar verið var að landa síld og makríl í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar úr Beiti NK í gær kom á land makríll sem vakti óskipta athygli starfsfólksins. Makríllinn var sá stærsti sem það hafði augum litið og þegar hann var vigtaður reyndist hann 1285 grömm að þyngd. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu sagði að þessi makríll væri óvenju stór. „ Ég held að þetta sé stærsti makríll sem ég hef séð. Annað slagið koma fiskar sem vigta um 1000 grömm en það er mjög fátítt. Þessi fiskur sprengir með afgerandi hætti alla stærðarflokka. Stærsti flokkurinn er 600 grömm og stærri og á það venjulega við um 600-800 gramma fisk. Það má segja að þessi fiskur sé óvenju stór og myndarlegur,“ sagði Jón Gunnar.