Jón Sen yfirlæknir. Ljósm. Hákon ErnusonJón Sen yfirlæknir. Ljósm. Hákon ErnusonÁ gamlársdag árið 2014 var undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að starfsmönnum Síldarvinnslunnar sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þeim að kostnaðarlausu. Í samningnum felst að Síldarvinnslan greiði allan kostnað vegna speglananna og að auki færi sjúkrahúsinu nýtt speglunartæki að gjöf. Umræddur samningur er í reynd viðbót við samning um heilsufarsskoðun starfsmanna Síldarvinnslunnar sem hefur verið í gildi frá árinu 2010. Samkvæmt þeim samningi sér Fjórðungssjúkrahúsið um að boða starfsmenn fyrirtækisins til almennrar heilsufarsskoðunar þriðja hvert ár en þeir starfsmenn sem náð hafa 60 ára aldri eða eru skilgreindir í áhættuhópi eru kallaðir til skoðunar árlega.
 
Ristilkrabbamein er á meðal algengustu krabbameina á Íslandi og töldu forsvarsmenn Síldarvinnslunnar fulla þörf á að efla forvarnir gegn þessum vágesti og það er best gert með fullkominni ristilspeglun.
 
Heimasíðan hafði samband við Jón Sen yfirlækni og spurði hann hvernig gengi að framkvæma ristilspeglunina á starfsmönnunum. „Þetta verkefni hefur gengið vel. Nú er búið að spegla um 45 einstaklinga úr starfsmannahópnum þannig að segja má að verkefnið sé hálfnað. Gert er ráð fyrir að verkefninu muni ljúka um næstu áramót,“ sagði Jón. „Mér finnst þetta verkefni vera til hreinustu fyrirmyndar og það skiptir okkur máli að vera með tvö tæki til að spegla. Á meðan annað er í þvotti er hitt í fullri notkun og það kemur öllum vel, líka þeim sem njóta hinnar almennu þjónustu á sjúkrahúsinu. Það hefur verið ánægjulegt að sinna þessu verkefni með starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Starfsfólkið hefur verið afar jákvætt og þegið speglunina með þökkum. Sárafáir hafa afþakkað. Og hafa verður í huga að verkefnið hefur skilað árangri. Búið er að fjarlægja mikinn fjölda svonefndra sepa úr ristlum starfsmanna, en separnir geta verið forstig krabbameins. Í tveimur tilvikum voru separnir sem fjarlægðir voru það stórir að þeir hefðu orðið að krabbameini með tímanum. Svo er alls ekki ólíklegt að einhverjir af litlu sepunum sem hafa verið fjarlægðir hefðu stækkað og umbreyst á næstu árum. Þannig að unnt er að segja að þetta átak Síldarvinnslunnar hafi að öllum líkindum beinlínis komið í veg fyrir krabbamein og það er svo sannarlega hægt að gleðjast yfir því,“ sagði Jón Sen að lokum.