Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti NK og innti hann frétta af kolmunnamiðunum við Færeyjar. „Við erum á leiðinni austur fyrir Akraberg, syðsta odda Færeyja, og gerum ráð fyrir að liggja þar í vari til fyrramáls,“ sagði Tómas. „Hér er bölvað rok, 30 metrar, og stórsjór og í reynd er ekki hundi út sigandi. En það fer vel um okkur um borð, enda skipið frábært í alla staði. Það liggja þarna allmörg kolmunnaskip í vari en önnur hafa leitað hafnar í Færeyjum. Það er óhætt að segja að tíðin hér sé ansi rysjótt og oft er það þannig að við þurfum að leita færis og hífa þegar dúrar. Kolmunnaveiðin að undanförnu telst vera ágætis kropp, við höfum gjarnan verið að fá um 400 tonn á sólarhring en fengum reyndar 550 tonn í tveimur holum í gær. Það eru núna komin 1650 tonn um borð hjá okkur,“ sagði Tómas að lokum.
Börkur NK er einnig á kolmunnaveiðum við Færeyjar en hann landaði tæplega 2100 tonnum í Neskaupstað sl. mánudag og Bjarni Ólafsson landaði þar tæplega 1600 tonnum sl. miðvikudag