Að morgni 7. júní hélt frystitogarinn Blængur NK til veiða í Barentshafi frá Kirkenes í Noregi. Skipið hafði legið í Kirkenes yfir sjómannadagshelgina á meðan áhöfnin naut hátíðarhaldanna heima. Blængur hafði verið við veiðar í Barentshafi frá því í lok aprílmánaðar en enn átti eftir að veiða um 500 tonn af kvótanum þegar sjómannadagshelgin gekk í garð. Heimasíðan sló á þráðinn til Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra og spurði frétta. „Það er vika síðan við hófum veiðar og það verður að segjast að þetta hefur verið heldur rólegt. Við höfum verið að fá um það bil eitt tonn á togtíma og þessa viku hefur ekki komið neitt aflaskot eins og komu í maí. Þetta er miklu lakari veiði en verið hefur í Barentshafinu á þessum árstíma undanfarin ár. Hér er hins vegar ekki hægt að kvarta undan veðri. Það var að vísu bræla fyrsta einn og hálfan sólarhringinn eftir að við komum út en síðan hefur verið renniblíða. Hér eru þrjú íslensk skip á miðunum, Arnar og Kleifaberg auk okkar. Fáein færeysk skip eru hérna einnig og töluvert af rússneskum. Þessi skip eru dreifð og hvergi mikill afli eftir því sem við best vitum. Annars gengur allt vel hér um borð og vinnslan gengur ágætlega,“ segir Bjarni Ólafur.