Heldur rólegt er yfir síldveiðunum úti fyrir Austfjörðum þessa stundina. Beitir NK er búinn að taka tvö hol í yfirstandandi veiðiferð og fékk 100 tonn í fyrra holinu en 80 í því síðara. Aflinn fékkst í Reyðarfjarðardýpinu. Þeir Beitismenn eru að færa sig sunnar og kanna hvort meira af síld sé sjáanleg þar.
Þegar þeir á Beiti voru að hefja dælingu í morgun varð vart við allmarga háhyrninga við trollið og einn þeirra sýndi athöfnum skipverja einstakan áhuga. Tómas Kárason skipstjóri smellti mynd af þessum forvitna háhyrningi og fylgir hún hér með. Að sögn Tómasar er talsvert um háhyrninga á veiðislóðinni og eru þeir oft fljótir að koma þegar byrjað er að hífa trollið. Þeir vita að gjarnan fellur til æti þegar dælt er og þess vegna borgar sig að fylgjast grannt með og grípa síldina þegar hún gefst.