Bergey VE og Vestmannaey VE í höfn í Vestmannaeyjum. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Bergey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Vestmannaeyjum sl. mánudag. Þeir tóku síðan stuttan karfatúr og lönduðu aftur í gær. Þá landaði Vestmannaey VE einnig fullfermi í gær. Heimasíðan sló á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra á Bergey og spurði hvernig gengi. „Það gengur bara vel að fiska þó vertíðin sé alveg búin. Við lönduðum rosalegum kokteil á mánudaginn var. Aflinn samanstóð af steinbít, kola, löngu, karfa, þorski, ýsu og ufsa. Við byrjuðum í Háfadýpinu og fengum þar helst löngu og ýsu. Þá var haldið austur að Ingólfshöfða og þar fékkst steinbítur og þykkvalúra og síðan var farið og veiddur þorskur og ýsa út af Vík. Landað var fullfermi á mánudag og síðan farið út í sólarhrings stubb. Þá var veiddur djúpkarfi suður á Sneið og það gekk bara þokkalega. Karfanum var síðan landað í gær,“ segir Jón.

Bergur hafði verið fyrir austan en eins og fyrr segir landaði hann fullfermi á mánudag og tók síðan karfastubb rétt eins og Bergey. Aflinn sem Vestmannaey landaði í gær var blandaður.