Ísfisktogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir í Vestmannaeyjum sl. miðvikudag eftir stuttan túr. Aflinn var fyrst og fremst þorskur og ýsa sem fékkst á Víkinni og á Ingólfshöfða. Skipin héldu strax til veiða á ný og lönduðu fullfermi á sunnudag og var aflinn blandaður. Skipstjórarnir, Jón Valgeirsson á Bergi og Birgir Þór Sverrisson á Vestmannaey, segja að það hafi verið rótarfiskirí að undanförnu en veður hafi hins vegar verið þreytandi. Ber þeim saman um að maímánuður hafi verið slæmur veðurfarslega og gjarnan hafi verið haugasjór og leiðindi.
Í þessari viku hafa skipstjórar og stýrimenn beggja skipa verið á fjögurra daga námskeiði í meðferð stafrænna sjókorta. Námskeiðið er haldið í Eyjum og auk manna af Eyjaskipunum eru tveir af Berki NK á námskeiðinu. Stafrænu sjókortin eru fyrir hendi í skipunum en skipstjórnarmenn þurfa að hafa sótt umrætt námskeið til að mega nota þau. Ber mönnum saman um að námskeiðið sé bæði gott og gagnlegt.
Námskeiðinu lýkur á morgun og er gert ráð fyrir að Bergur og Vestmannaey haldi á ný til veiða á föstudag.