Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með rúm 1.100 tonn af kolmunna. Börkur NK kom síðan í gærmorgun með tæp 1.900 tonn og Beitir NK síðdegis í gær með tæp 1.700 tonn. Aflann fengu skipin í færeyskri lögsögu.
Heimasíðan ræddi við Runólf Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Hún hefði mátt ganga betur. Við komum með 1.160 tonn sem fengust í sjö holum. Það er einungis tekið eitt hol á sólarhring og við fengum mest 300 tonn í holi en aflinn fór alveg niður í 20 tonn. Vandinn var sá að fiskurinn sem fékkst var of smár og það kom okkur á óvart. Við leituðum að stærri fiski og fórum víða. Veitt var austur af eyjunum, norðaustur og suðaustur en alls staðar var þetta sama sagan. Venjulega hefur fengist stór og góður kolmunni í færeysku lögsögunni á þessum árstíma en stóri fiskurinn lét ekki sjá sig á meðan við vorum þarna. Ég held að stóri fiskurinn gangi svo austarlega að hann komi ekki inn í lögsöguna. Allavega gerði hann það ekki á meðan túrinn stóð yfir. Nú er búið að loka stórum svæðum í lögsögunni vegna smáfisksins og það er eðlilegt. Vonandi rætist úr þessu og þarna eru skip sem beðið er frétta frá, en nú spáir hann vitlausu veðri á þessum slóðum út vikuna,“ segir Runólfur.
Grænlenska skipið Polar Amaroq hélt til kolmunnaveiða í lok síðustu viku og samkvæmt fréttum í morgun fæst nú stærri kolmunni í færeysku lögsögunni. Gert er ráð fyrir að Börkur, Beitir og Bjarni Ólafsson haldi á ný til veiða á morgun.