Um þessar mundir er rússnesk kvikmyndavika haldin í sjöunda sinn á Íslandi. Kvikmyndavikan er að þessu sinni tileinkuð 75 ára afmæli stjórnmálasambands Rússlands og Íslands. Á kvikmyndavikunni eru myndir sýndar í Bíó Paradís í Reykjavík en einnig er boðið upp á sýningar á Ísafirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Vopnafirði, Höfn og í Neskaupstað.
Í Neskaupstað verður gamanmyndin Hamingjan er… sýnd klukkan 16 sunnudaginn 22. september og er enginn aðgangseyrir greiddur. Um er að ræða nýja mynd sem hefur hlotið lof gagnrýnenda. Myndin verður sýnd með rússnesku tali og enskum texta.
Rússneski sendiherrann, Anton Vasiliev, og Tatiana Khalyapina, menningarfulltrúi í sendiráðinu, heimsóttu Síldarvinnsluna í júlímánuði sl. og þá var einmitt fjallað um að rússneska kvikmyndavikan myndi teygja anga sína til Neskaupstaðar. Síldarvinnslan hefur alla tíð átt afar ánægjuleg samskipti við Rússa enda hefur Rússland löngum verið einn af traustustu mörkuðunum fyrir íslenskar sjávarafurðir. Í heimsókn sendiherrans var sérstaklega rætt um það viðskiptabann sem nú ríkir á milli ríkjanna og hve mikilvægt væri að aflétta því. Þá var sagan rædd í heimsókn sendiherrans og rifjuð upp hugmyndafræðileg tengsl Moskvu og Litlu-Moskvu.
Hið svonefnda Rússabann hefur lokað á sölu á frystum sjávarafurðum til Rússlands en þar hefur verið einhver mikilvægasti markaður íslenskra fyrirtækja fyrir síld, loðnu og fleiri sjávarafurðir. Mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og starfsfólk þeirra hafa orðið fyrir miklum skaða vegna bannsins, einkum þau fyrirtæki sem veiða og vinna uppsjávartegundir. Bannið leiddi til mikils verðfalls viðkomandi afurða og hætta er á að markaðirnir tapist endanlega ef það dregst mjög á langinn. Það er afar mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg að hlutaðeigandi ríkjum auðnist að leysa þau deiluefni sem leiddu til bannsins og eðlilegt viðskiptasamband með sjávarafurðir verði tekið upp á ný.
Vill Síldarvinnslan hvetja Norðfirðinga og Austfirðinga alla til að sækja kvikmyndasýninguna á sunnudag og mun fyrirtækið bjóða upp á síldarsmárétti að henni lokinni.