Seinni partinn í gær var rýmingu á svæðinu undir Strandartindi á Seyðisfirði aflétt en þá var ekki lengur álitin hætta á snjóflóðum. Gunnar Sverrisson, verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar, sem rýmd var í fyrrakvöld, segir að verksmiðjan hafi verið gangsett strax og rýmingunni var aflétt. „Við hófum vinnslu í gærkvöldi á þeim 450 tonnum af kolmunna, sem landað hafði verið úr Margréti EA þegar ákvörðun var tekin um rýminguna. Við erum nú að ljúka við að vinna þetta hráefni. Margrét var með 1.300 tonn og fór til Neskaupstaðar og lauk löndun þar í gærkvöldi og í nótt. Nú bíðum við bara spenntir eftir að fá meiri kolmunna til vinnslu. Það eru mörg skip að kolmunnaveiðum vestur af Írlandi og vonandi munu þau afla vel næstu daga. Það eru góðar líkur á að við fáum kolmunna til vinnslu á næstu sólarhringum“, sagði Gunnar.