Landað úr Bergey VE sl. föstudag. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogararnir Bergey VE og Gullver NS komu báðir að landi sl. föstudag með góðan afla. Bergey landaði fullfermi í Vestmannaeyjum og segir Jón Valgeirsson skipstjóri að afli hafi verið ágætur þó veðrið hefði mátt vera betra. “Veðurfarið hefur verið leiðinlegt. Það er bölvuð ótíð ríkjandi þó að komi einn og einn dagur góður inn á milli. Það er hins vegar ekkert hægt að kvarta undan fiskiríinu. Við fengum góðan ufsaafla á Reynisdýpinu og þorskur og dálítil ýsa fékkst á Pétursey og á Víkinni. Það má segja að það hafi verið fantaveiði enda vorum við einungis rúma tvo sólarhringa í túrnum,” segir Jón.

Steinþór Hálfdanarson, skipstjóri á Gullver, tekur undir með Jóni hvað veðurfarið varðar. “Það er afskaplega rysjótt veðurfar núna. Tíðin er bara í einu orði sagt hundleiðinleg. Það gekk hins vegar vel að fiska en við lönduðum 107 tonnum á Seyðisfirði. Uppistaða aflans var þorskur og karfi. Karfann tókum við í Berufjarðarálnum en þorskinn á Digranesflakinu. Það er spölur á milli þessara veiðisvæða, um 12 tíma kippur,” segir Steinþór.