Guðjón B. Magnússon

Guðjón B. Magnússon er Siglfirðingur en fluttist austur til Neskaupstaðar árið 1974. Hann „giftist austur“ eins og sagt er en kona hans er Norðfirðingurinn Jóhanna Stefánsdóttir. Guðjón starfaði hjá Síldarvinnslunni í um 47 ár og hefur aldrei unnið hjá öðru fyrirtæki eftir að hann settist að í Neskaupstað. Um mánaðamótin apríl-maí sl. lét Guðjón af störfum og í tilefni af því tók heimasíða Síldarvinnslunnar hann tali.

Hver er starfsferill þinn hjá Síldarvinnslunni?

Hann er nokkuð fjölbreyttur. Ég gegndi ýmsum störfum hjá fyrirtækinu. Þegar ég flutti austur hafði ég lokið námi í blikksmíði og fór að vinna hjá Dráttarbrautinni sem Síldarvinnslan rak. Fljótlega var farið að vinna að stóru blikksmíðaverkefni sem var loftræstikerfi í nýbyggingu Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað. Auk þess að vinna við blikksmíði starfaði ég við alls konar járnsmíðaverkefni hjá Dráttarbrautinni. Haustið 1978 fór ég í nokkra túra á Stóra-Berki og líkaði mér vel á sjónum. Árið eftir var ég fastráðinn háseti og var ég á Berki til ársins 1991. Það var afar gott að vera á Berki; það fiskaðist ávallt vel og allan tímann var mannskapurinsl. n nánast sá sami, frábærir skipsfélagar. Báturinn veiddi loðnu, síld og kolmunna og síðan var siglt til Englands með ísaðan bátafisk. Siglingarnar voru yfir sumartímann eða frá því í apríl og fram á haust. Að því kom árið 1991 að ég fór í land og þá var ég ráðinn viðgerðarmaður í fiskimjölsverksmiðjunni. Síðar, eða á árinu 2008, tók ég við verksmiðjustjórastarfi og sinnti því til ársins 2016. Árið 2016 var ég ráðinn öryggisstjóri Síldarvinnslunnar og það var mitt starf allt þar til ég hætti um síðustu mánaðamót.

Það hefur aldrei hvarflað að þér að starfa hjá öðrum vinnuveitanda?

Það fiskaðist oft vel á Stóra-Börk. Guðjón var háseti á Berki á árunum 1979-1991

Nei, ég sá enga ástæðu til að skipta um vinnuveitanda. Ég hef ávallt verið ánægður í starfi og Síldarvinnslan er traust og gott fyrirtæki. Á árunum 1976-1979 var ég í forsvari fyrir Málm- og skipasmiðafélag Norðfjarðar og þá þurfti að sinna gerð kjarasamninga og fleiri málefnum stéttarfélagsins. Ávallt fannst mér Síldarvinnslan koma vel fram við samningsgerðina og þar á bæ var sanngirni höfð að leiðarljósi. Og aldrei fann ég fyrir því að það bitnaði á mér að vera í forsvari fyrir félagið.

Þú varst fyrsti maðurinn til að sinna starfi öryggisstjóra hjá Síldarvinnslunni, er það ekki rétt?

Jú, það er rétt. Ég fékk snemma mikinn áhuga á öryggismálum eða allt frá þeim tíma að ég sótti Slysavarnaskóla sjómanna. Á árunum 2007-2008 var gert áhættumat fyrir fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað og vakti það athygli. Ég held það hafi verið gerð þessa áhættumats og sú starfsemi sem af því leiddi sem gerði það að verkum að mér var boðið að gegna starfi öryggisstjóra fyrir fyrirtækið allt. Það var afar ánægjulegt að fá tækifæri til að starfa að öryggismálunum og það hefur orðið mikil vakning á því sviði. Við, hér fyrir austan, höfðum gott af því að fá ALCOA-Fjarðaál á svæðið því þar kynnumst við hvernig öryggismálum er sinnt af alvöru. ALCOA varð því ákveðin fyrirmynd í þessum efnum og það hefur verið af hinu góða. Mér fannst starfsfólk Síldarvinnslunnar taka því vel að aukin áhersla var lögð á öryggismál og vissulega hefur náðst ágætur árangur þó enn sé þörf á að bæta ýmislegt. Hvað öryggismál varðar má aldrei sofna á verðinum.

Guðjón á Stóra-Berki á loðnuveiðum

Hvað á að fást við nú þegar starfsferlinum er lokið?

Ég hef engar áhyggjur af verkefnaskorti. Það er margt fólk í kringum mig og ég ætla að gera margt skemmtilegt með því, ekki síst barnabörnunum. Þá hef ég tekið þátt í félagsstarfi og hyggst ótrauður halda því áfram. Ég er formaður sóknarnefndar og syng í kirkjukórnum og syng einnig í Karlakórnum Ármönnum. Ég er búinn að vera í kirkjukórnum í um 20 ár og nýt þess til hins ítrasta. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af framtíðinni og það verður hægt að hafa nóg fyrir stafni.