Valur Valtýsson, háseti á Bergey, með stóra þorskinn sem fékkst í Háfadýpinu. Ljósm: Hákon U. Seljan Jóhannsson

Systurskipin Vestmannaey VE og Bergey VE hafa fiskað afar vel að undanförnu. Vestmannaey fór á sjó klukkan tíu á laugardagsmorgun og var komin til löndunar með fullfermi síðdegis á sunnudag. Skipið fór út strax að löndun lokinni og mun væntanlega landa fullfermi á ný í fyrramálið. Bergey hélt einnig til veiða á laugardag og landaði fullfermi í gær. Gert er ráð fyrir að hún landi á ný á morgun. Heimasíðan fékk fregnir af því að Bergey hefði veitt einstaklega myndarlegan þorsk og sló að því tilefni á þráðinn til Jóns Valgeirssonar skipstjóra. „Jú, við fengum óvenju stóran þorsk undir lok síðasta túrs í Háfadýpinu. Þetta var þorskur sem var um 50 kg. að þyngd og um 1,80 að lengd. Hann var gamall og virðulegur og hefur árum saman sloppið við net og troll. Við vorum mest á Selvogsbankanum í túrnum en skruppum í Háfadýpið rétt undir lokin. Það hefur verið alveg fínasta veiði og túrarnir eru ekki langir þegar fiskast svona. Núna erum við að toga í Háfadýpinu í leiðindaveðri. Það er austan 18- 20 metrar og verður þannig í dag. Síðan held ég að sé betra í kortunum. Aflinn hér er blandaður en þetta er allt mjög góður fiskur,“ segir Jón.