Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði í morgun með 87 tonn. Uppistaða aflans var þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að túrinn hafi gengið sæmilega. „Við vorum að veiðum frá Glettingi og suður á Fót. Í túrnum var ýmist kaldi eða skítabræla. Það var til dæmis bölvuð bræla bæði á laugardag og sunnudag. Ýsan sem við fengum var mjög góð en þorskurinn heldur blandaðri. Fiskiríið í haust hefur verið heldur erfitt. Það hefur sjaldan verið stöðug góð veiði, frekar að menn hafi rekið í eitt og eitt gott hol. Veðrið hefur hins vegar almennt verið þokkalegt í haust og varla hægt að kvarta mikið yfir því,“ segir Þórhallur.
Gullver mun halda á ný til veiða í kvöld.