Eftir að hin svonefndu síldarár liðu undir lok hófst saltfiskverkun í verulegum mæli hjá Síldarvinnslunni. Á vetrarvertíðinni 1968 lögðu fjórir Norðfjarðarbátar stund á netaveiðar fyrir Suðurlandi og lögðu upp aflann hjá Síldarvinnslunni. Öfluðu þeir vel og hafðist ekki undan að flaka og frysta fiskinn. Var þá gripið til þess ráðs að hefja saltfiskverkun í stærri stíl en áður hafði þekkst hjá fyrirtækinu. Komið var upp aðstöðu til verkunarinnar í einni af mjölskemmum síldarverksmiðjunnar og voru það fyrst og fremst starfsmenn síldarverksmiðjunnar sem önnuðust verkunina undir stjórn Guðjóns Marteinssonar verkstjóra.
Í upphafi voru engin tæki notuð við saltfiskvinnsluna og var allur fiskur handhausaður og handflattur. Þá var húsnæðið óupphitað og erfitt að verja fiskinn fyrir frosti áður en hann fór í salt en allur fiskur var saltaður í stæður.
Ekki leið langur tími þar til vélvæðing saltfiskverkunarinnar hófst og vinnuaðstaða var bætt. Fiskþvottakörum var komið upp og lyftarar leystu hjólbörur af hólmi. Eftir fyrstu tvö árin var farið að pækilsalta fiskinn. Árið 1970 var keypt hausingavél og árið 1972 kom flatningsvél til sögunnar. Þurrkklefa hafði verið komið upp árið 1969 og var unnt að þurrka 20 tonn af saltfiski í honum á mánuði en klefinn var sannast sagna aldrei mikið notaður.
Árið 1974 var ný saltfiskverkunarstöð Síldarvinnslunnar tekin í notkun í svonefndu Rauðubjargahúsi. Við það varð öll aðstaða til verkunarinnar betri en áður og í reynd var um nútímalega og fullkomna saltfiskverkun að ræða. Með tilkomu nýju stöðvarinnar fjölgaði starfsfólki mikið og varð saltfiskverkun veigamikill þáttur í starfsemi Síldarvinnslunnar. Algengt var að unglingar fengju sína fyrstu starfsreynslu við fiskvinnslu í saltfiskverkunarstöðinni undir stjórn Guðjóns Marteinssonar. Á árunum 1974 – 1990 unnu yfirleitt 40 – 50 manns manns við salfiskvinnsluna yfir vetrartímann en yfir sumartímann, þegar skólafólkið var á vinnumarkaði, voru starfsmennirnir gjarnan 70 – 80 og fyrir kom að í stöðinni störfuðu allt að 120 manns. Áhersla á saltfiskverkun var allbreytileg og fór það helst eftir markaðsaðstæðum. Þá er rétt að geta þess að starfsfólk saltfiskstöðvarinnar sinnti einnig skreiðarverkun en sú verkun var misjafnlega mikil frá ári til árs.
Árið 1997 var hætt að verka saltfisk í saltfiskverkunarstöðinni og starfsemin flutt í hið nýja fiskiðjuver Síldarvinnslunnar sem risið hafði við höfnina fyrir botni Norðfjarðar. Dregið var úr verkuninni á þessum tíma og salfiskur yfirleitt einungis unninn yfir sumartímann. Sífellt var minni afli tekinn til verkunar í salt og síðla árs 1999 var tekin ákvörðun um að hætta saltfiskverkun á vegum Síldarvinnslunnar.
Guðjón Marteinsson stýrði saltfiskverkun á vegum fyrirtækisins til dauðadags árið 1989. Þá var Þorkell Bergsson ráðinn yfirverkstjóri og sinnti hann starfinu til ársins 1991. Loks var Heimir Ásgeirsson ráðinn í starfið og gegndi hann því þar til verkuninni var hætt árið 1999.