Síld landað úr Margréti EA í morgun. Ljósm. Smári Geirsson

Margrét EA kom í gærmorgun til Neskaupstaðar með 1.300 tonn af íslenskri sumargotssíld og hófst vinnsla á henni strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan ræddi við Hjört Valsson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. „Þetta fékkst á sömu slóðum og veitt hefur verið á að undanförnu – í Jökuldýpinu. Aflinn fékkst í fimm holum. Við fengum fínt fyrst eftir að við komum út en síðan kaldaði og þá hvarf síldin. Við fengum svo fínt aftur í lokin. Það voru einungis þrjú skip á miðunum, auk okkar voru það Hákon og Jóna Eðvalds. Það eru flestir búnir með kvótann enda hefur veiðin almennt gengið prýðilega. Við fórum bara tvo túra og nú er þessu lokið hjá okkur. Þetta er sama góða síldin og hefur fengist að undanförnu þarna vesturfrá. Hún er 300 grömm, átulaus og flott í alla staði. Við stoppum núna fram yfir áramót og spurningin er hvort farið verður á kolmunna eða loðnu eftir áramótin. Vonandi verður loðna,“ sagði Hjörtur Valsson.

Ráðgert er að Börkur NK fari einn síldartúr til viðbótar vestur fyrir land og mun hann væntanlega láta úr höfn á morgun.