Síðustu dagana hefur síld verið unnin allan sólarhringinn í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Beitir NK og Birtingur NK hafa verið að veiðum og aflað vel. Í gærkvöldi kom Birtingur að landi með 900 tonn og þegar vinnslu á þeirri síld lýkur verður fiskiðjuverið þrifið hátt og lágt og síðan gefið helgarfrí. Beitir hefur nú hætt veiðum en hann er á leið til Póllands í slipp. Eins mun Birtingur ekki veiða meira af norsk-íslenskri síld á þessari vertíð. Í stað þessara tveggja skipa mun Börkur NK halda til síldveiða um komandi helgi en unnið hefur verið að viðhaldi þar um borð að undanförnu. Gert er ráð fyrir að Börkur ljúki við að veiða síldarkvóta fyrirtækisins. Að sögn Jóns Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra eru bátarnir ávallt að koma með sömu stóru og góðu síldina enda hefur vinnslan gengið afar vel.