Samhliða aðalfundi sínum í gær hefur Síldarvinnslan gefið út samfélagsskýrslu fyrir árið 2022, en fundinum og útgáfu skýrslunnar var frestað um nokkrar vikur vegna snjóflóðanna í Neskaupstað í mars. Útgáfa samfélagsskýrslu er mikilvægur liður í upplýsingagjöf Síldarvinnslunnar til samfélagsins og fjárfesta um ófjárhagslega þætti í starfsemi félagsins. Í skýrslunni er meðal annars að finna nákvæmt umhverfisbókhald samstæðunnar sem og ýmsar aðrar upplýsingar. Meðal annars er fjallað um helstu nýsköpunar- og samfélagsverkefni sem félagið vann að á árinu 2022.

Upplýsingar í skýrslunni ná utan um Síldarvinnsluna og dótturfélög á Íslandi, með þeirri undantekningu að erlend dótturfélög Vísis eru undanskilin. Þrátt fyrir að kaup Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækinu Vísi í Grindavík hafi gengið í gegn undir lok árs 2022 taka gögn og útreikningar sem birt eru í skýrslunni mið af starfsemi Vísis allt árið 2022. Kaflaskipting og skipulag skýrslunnar tekur mið af leiðbeiningum frá Nasdaq Ísland kauphöllinni um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja með sérstakri áherslu á sjálfbærni.. Við gerð skýrslunnar var einnig horft til þeirra áhersluatriða sem felast í sjálfbærnistefnu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:

„Markmið okkar með útgáfu samfélagsskýrslu er að auka gagnsæi um starfsemi félagsins og tryggja að allar ófjárhagslegar upplýsingar um hana séu aðgengilegar. Við erum nú að gefa út samfélagsskýrslu fjórða árið í röð og hefur hún þróast stöðugt á þeim tíma. Meðal annars veitir skýrslan betra og aðgengilegra yfirlit um starfsemi Síldarvinnslunnar. Sömuleiðis stuðlar útgáfa hennar að vönduðum og ábyrgum vinnubrögðum innan félagsins. Í gegnum tíðina höfum við notið þeirrar gæfu að hafa öflugt og metnaðarfullt starfsfólk í vinnu hjá okkur. Í þessari skýrslu höfum við lagt sérstaka áherslu á okkar mannauð og viljum veita innsýn í þau fjölbreytilegu störf sem starfsfólk fæst við frá degi til dags á starfsstöðvum okkar um allt land.“

„Síldarvinnslan vill vera í fararbroddi á sviði samfélagslegrar ábyrgðar, taka þátt í uppbyggingu þeirra samfélaga sem hún starfar í og vill lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfsemi sinni. Til að draga úr kolefnisspori starfseminnar höfum við fjárfest í rafvæðingu fiskimjölsverksmiðjanna okkar. Það voru því mikil vonbrigði að við skyldum ekki fá rafmagn til þeirra fyrstu þrjá mánuði ársins 2022, vegna þess að ekki var til staðar næg raforka í landinu. Þetta leiddi til aukinnar olíunotkunar í verksmiðjum Síldarvinnslunnar og það kemur fram í umhverfisbókhaldi félagsins fyrir árið 2022. Við teljum mikilvægt að nýta grænar orkuauðlindir Íslands til að ná markmiðum þjóðarinnar í orkuskiptum.“

Samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar má nálgast á vefsvæði félagsins, hér: https://svn.is/wp-content/uploads/2023/04/SVN_SS_2023.pdf.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason forstjóri í síma 470 7000.