Samfélagsskýrsla Síldarvinnslunnar fyrir árið 2020 hefur verið gefin út og er það annað árið sem félagið gefur út samfélagsskýrslu. Meginumfjöllunarefni skýrslunnar eru ófjárhagslegir þættir starfseminnar og áhrif þeirra á umhverfi og samfélag. Skýrslan er unnin í samræmi við GRI staðal (e. Global Reporting initative). Í þessari skýrslu er sérstök áhersla lögð á að greina frá þeim nýsköpunar- og þróunarverkefnum sem Síldarvinnslan er þátttakandi í, í samvinnu við rannsóknasjóði og háskóla. Þessi verkefni eru félaginu mikilvæg og hafa nýst við ákvarðanatöku um fjárfestingar í bættri tækni á sjó og í landi.

Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:

„Árið 2020 var ár mikilla áskorana í rekstri Síldarvinnslunnar líkt og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum á Íslandi. Heimsfaraldurinn hafði áhrif á alla starfsemi félagsins og starfsfólk gekk í gegnum margvíslegar skerðingar á sínu starfsumhverfi. Enn erum við að glíma við faraldurinn en vonandi fer að sjá fyrir endann á honum.

Samfélagsskýrsla Síldarvinnslunnar er mikilvægur liður í að upplýsa um starfsemi félagsins á víðum grunni. Samfélagsábyrgð fyrirtækja er sífellt meira til umræðu og vill Síldarvinnslan vera leiðandi á því sviði. Áskoranirnar í umhverfis- og samfélagsmálum eru þess eðlis að allir þurfa að leggja sitt af mörkum. Við hjá Síldarvinnslunni erum að standa okkur vel á mörgum sviðum en alltaf eru tækifæri til úrbóta og er gerð samfélagsskýrslu liður í að greina frá því sem vel er gert og einnig fara yfir það sem betur má fara.

Síldarvinnslan hefur tekið fullan þátt í vinnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um sameiginlega stefnu í samfélagsmálum sem kynnt var í fyrra og byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ég tel mikinn styrk felast í því að stefnan hafi verið sett fram og unnin í sameiningu af félögum í greininni. Það er mikilvægt að allir rói í sömu átt þegar kemur að umhverfis- og samfélagsmálum. Íslenskur sjávarútvegur er vel meðvitaður um það og er sameiginleg stefna til marks um það.“

Á næstu vikum verða breytingar á starfsumhverfi Síldarvinnslunnar þar sem félagið stefnir á að skrá hlutabréf félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Með þessu skrefi er félagið að svara kalli tímans um aukið gagnsæi og dreifðara eignarhald í sjávarútvegi. Með beinni aðkomu fleiri að félaginu  er vonast til að náist betri sátt um sjávarútveginn. Með skráningu í Kauphöll mun áhersla Síldarvinnslunnar á komandi árum verða í þá átt að auka upplýsingagjöf um starfsemi félagsins. Ein leið til þess er að gefa árlega út vandaða samfélagsskýrslu sem mun taka mið af kröfum um gagnsæi og upplýsingagjöf.

Samfélagsskýrsluna má nálgast á vef Síldarvinnslunnar hér