Verðmætasköpun Síldarvinnslunnar hefur víðtæk samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Í nýútkominni samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar fyrir árið 2023 má finna samantekt um samfélagsspor Síldarvinnslusamstæðunnar sem gefur heildstæða mynd af öllum opinberum gjöldum og sköttum sem greiddir eru til hins opinbera vegna starfsemi félagsins. Síldarvinnslan greiddi 6.303 milljónir kr. í skatta og gjöld árið 2023. Félagið innheimti 4.316 milljónir kr. á árinu af starfsfólki og hluthöfum fyrir ríkissjóð. Samtals nam því samfélagsspor starfseminnar 10.619 milljónir kr. og jókst um 1.018 milljónir kr. frá árinu á undan. Heildarstarfsmannafjöldi samstæðu Síldarvinnslunnar var 739 á árinu 2023 og því er ljóst að þau verðmæti sem skapast af starfseminni eru veruleg ef þau eru mæld á hvert og eitt stöðugildi.

Nánari umfjöllun um samfélagsspor, stjórnarhætti, umhverfisþætti og ýmsa ófjárhagslega þætti má finna í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar fyrir árið 2023 sem nálgast má hér (https://svn.is/wp-content/uploads/2024/03/SVN_Samfelagsskyrsla_23.pdf)