Loðnuskipin streyma að landi með góðan afla en þau fengu góð hol í gær. Það brældi upp á miðunum í gærkvöldi og nú er þar illviðri. Beitir NK er að landa í fiskiðjuverið í Neskaupstað. Hann er með 2.500 tonn og er allur aflinn kældur. Bjarni Ólafsson AK er kominn til Neskaupstaðar með 1.550 tonn og mun hann landa í fiskiðjuverið á eftir Beiti. Vilhelm Þorsteinsson EA er að landa 1.840 tonnum á Seyðisfirði og á eftir honum mun Hákon EA landa 1.450 tonnum.
Nú eru örfá skip á miðunum og þau geta ekkert aðhafst vegna veðurs. Veðurspár greina frá djúpum lægðum á næstu dögum. Útgerðir eru farnar að hyggja að nótaveiði en þó má gera ráð fyrir unnt verði að veiða í flotvörpu í nokkra daga í viðbót.
Þó svo að Hafrannsóknastofnun hafi gefið út að loðnukvótinn verði hugsanlega skertur mun Síldarvinnslan halda sínu striki varðandi veiðarnar. Þess verður hins vegar vandlega gætt að nægur kvóti verði eftir þegar kemur að hrognatöku og frystingu fyrir Asíumarkað.