Sl. laugardag var verið að landa úr Berki NK og Vilhelm Þorsteinsson EA beið löndunar. Ljósm. Smári Geirsson

Síðustu daga hefur samfelld loðnuvinnsla verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Beitir NK, Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA hafa komið með afla til löndunar og um 70 starfsmenn fiskiðjuversins sinna framleiðslunni en unnið er að henni á þrískiptum vöktum. Um nýliðna helgi var unnið úr Berki sem kom með 1.550 tonn og síðan úr Vilhelm Þorsteinssyni sem var með 2.100 tonn. Lokið var við að vinna úr Vilhelm sl. nótt. Í gær kom síðan Beitir með tæp 400 tonn, en aflann fékk hann í tveimur köstum þegar stutt hlé varð á brælunni sem verið hefur að undanförnu. Nú er veðrið hins vegar gengið niður og gott veðurútlit næstu daga.

Heimasíðan ræddi við Geir Sigurpál Hlöðversson, rekstrarstjóra fiskiðjuversins, og spurði hvernig vinnslan gengi. „Hún hefur gengið vel. Við höfum verið að framleiða hæng og svonefnt mix. Hrognafyllingin er núna rúmlega 12% en það verður ekki farið að frysta á Japan fyrr en hún er orðin 15%. Veðurútlit núna er gott og menn eru bjartsýnir hvað varðar veiðina. Hér er því góð stemmning og það verður væntanlega nóg að gera á næstunni. Skipin eru að veiða núna út af Suðursveitinni,“ segir Geir Sigurpáll.