Síðustu tvær vikurnar hefur verið nær samfelld vinnsla á makríl og síld í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu segir að vinnslan hafi gengið vel en bagalegt sé hve mikið af síld sé stundum í aflanum. „Skipin reyna að forðast síldina eins og unnt er en engu að síður eru þau alloft að taka hol með háu síldarhlutfalli. Þessi blandaði afli dregur töluvert úr afköstum í fiskiðjuverinu því það tekur ávallt tíma að skipta úr makrílvinnslu yfir í síldarvinnslu og öfugt. Fyrir utan þetta er engin ástæða til að kvarta,“ sagði Jón Gunnar.
Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Berki sagði í samtali við heimasíðuna að oft væri erfitt að ná hreinum makrílholum um þessar mundir. „Við erum að toga og erum komnir með um 470 tonn. Það er líklega um helmingur aflans síld þrátt fyrir að við reynum að forðast hana sem best við getum. Skipin hafa ekkert verið að toga á nóttunni því þá kemur síldin upp í miklu magni og blandast makrílnum en samt erum við að fá of mikla síld. Kvótinn af síld er lítill og því skiptir svo miklu máli að ná sem hreinustum makrílholum en það er erfitt. Það virðist vera mikið magn af síld hér á ferðinni. Ég reikna með að við komum inn til löndunar í kvöld,“ sagði Hjörvar.
Börkur landaði síðast 755 tonnum al. laugardag og sunnudag, þá kom Beitir með 800 tonn og lauk löndun í gær. Nú er verið að landa úr Bjarna Ólafssyni tæpum 500 tonnum.