Nú er makríl landað úr Beiti NK. Ljósm. Smári Geirsson

Í fiskiðuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið samfelld makrílvinnsla að undanförnu. Vilhelm Þorsteinsson EA lauk við að landa 1.300 tonnum í nótt og þá hófst löndun úr Beiti NK sem kominn var með rúmlega 1.100 tonn. Heimasíðan ræddi við Jón Gunnar Sigurjónsson yfirverkstjóra í fiskiðjuverinu og spurði fyrst hvort vinnslan væri komin í fullan gang. „Já, það má segja það. Það tekur ávallt dálítinn tíma í upphafi vertíðar að fá allt til að virka eðlilega en nú er allt farið að ganga vel. Það er veruleg áta í fiskinum, hann er að éta og fitna eins og eðlilegt er á þessum árstíma. Hér er unnið á þrískiptum vöktum og það eru rúmlega 30 manns á hverri vakt. Mikið af af fólkinu er með góða reynslu en það eru einnig nýliðar í bland. Okkur líst vel á framhaldið, menn trúa því að þetta verði fínasta vertíð,“ segir Jón Gunnar.

Börkur NK er að veiðum í Smugunni og í morgun fréttist að hann væri kominn með um 600 tonn í þremur holum.