Yfirstandandi síldarvertíð gengur vel og samfelld vinnsla er í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Byrjað var að vinna úr Berki NK sl. föstudagskvöld en hann var með 2.100 tonn. Í kjölfar hans var unnið úr Vilhelm Þorsteinssyni EA sem kominn var með liðlega 1.800 tonn. Vinnslu úr Vilhelm lauk í nótt og þá hófst löndun úr Beiti NK sem er með 1.350 tonn. Skipin hafa verið að veiðum sunnarlega á veiðisvæðinu og þar er töluvert af íslenskri sumargotssíld í aflanum.
Heimasíðan ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði hvort ekki ríkti ánægja með aflabrögðin á vertíðinni. „Jú, þetta er þægilegasta vertíð. Það er stutt á miðin, aflabrögðin hafa verið góð og veðrið hefur verið mjög hagstætt ef undan er skilinn hvellurinn nú um helgina. Það er þægilegt að hafa síldina við bæjardyrnar. Við erum svona tvo og hálfan tíma á miðin frá höfn í Neskaupstað þegar veitt er sunnarlega á veiðisvæðinu. Á suðurhluta veiðisvæðisins fæst bæði norsk – íslensk síld og íslensk sumargotssíld en ef veitt er norðar fæst nánast eingöngu norsk – íslensk síld. Veiðiferðirnar eru stuttar, en við tökum að jafnaði þrjú til fjögur hol í hverri veiðiferð,“ segir Tómas.