Vinnsla á síld hefur verið samfelld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað undanfarna daga. Lokið var við að vinna 1230 tonn úr Berki NK upp úr hádegi á laugardag og þá var Beitir NK kominn til hafnar með 1270 tonn. Hófst vinnsla strax úr honum. Börkur hélt til veiða strax að löndun lokinni og var kominn að landi í morgun með 1470 tonn. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra á Berki og spurði hann hvort síldin héldi sig alltaf á sömu slóðum. „Já, hún gerir það. Við fengum þennan afla í fimm holum innarlega á Héraðsflóanum. Við toguðum afar stutt og vorum ekkert að flýta okkur. Lengsta holið var tveir tímar og það stysta 20 mínútur og við gáfum okkur góðan tíma á milli hola. Menn þurfa að gæta að sér því það er hætta á að fá allt of mikið. Það er gríðarlega mikið af síld á þessum slóðum og hún virðist kunna vel við sig þarna. Síldin er afar falleg og hún er stærri en í síðasta túr eða yfir 400 grömm. Hún er líka átulaus og sterk og afar góð til vinnslu. Þetta verður ekki mikið þægilegra. Við erum að veiða við bæjardyrnar í blíðuveðri dag eftir dag. Og frá miðunum til Norðfjarðarhafnar voru 47 mílur þegar við hættum veiðum núna. Þetta er alger veisla,“ segir Hálfdan.