Þessa dagana er samfelld hrognavinnsla í Neskaupstað og Helguvík. Í Neskaupstað var lokið við að kreista hrogn úr Berki NK í gær og nú er verið að kreista úr Margréti EA. Síðar í dag hefst löndun úr Hákoni EA og á eftir honum kemur Beitir NK sem nú er á austurleið með 2.600 tonn. Í Helguvík var klárað að kreista úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í nótt og nú er Polar Amaroq að landa þar hrognaloðnu.
Öll áhersla er lögð á hrognavinnsluna um þessar mundir og því hefur engri loðnu verið landað í fiskimjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði síðustu daga. Alls hafa um 13.560 tonn borist til verksmiðjunnar og er lokið við að vinna hráefnið.
Áframhaldandi mokveiði er á loðnumiðunum en nú eru skipin að veiðum norðan við Snæfellsnes.