Heimasíðan ræddi stuttlega við Róbert Inga Tómasson, framleiðslustjóra í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, og spurði hvernig framleiðslan hefði gengið að undanförnu. „Ég held ég verði að segja að hún hafi gengið vel og það hefur mikið breyst frá því að hóf að draga úr kóvídáhrifunum. Hjá okkur hefur verið samfelld vinnsla allt árið en það er þó ávallt lokað í um það bil mánuð yfir sumarið. Í sumar var til dæmis lokað í 26 daga í júlí og ágúst og nutu starfsmennirnir sumarfrísins afar vel. Frá janúar til júní eru yfirleitt unnar frystar afurðir í húsinu. Það eru þá gömlu góðu fimm pundin sem helst eru á dagskrá. Frystu afurðirnar fara að langmestu leyti til Bandaríkjanna. Það eru sárafá hús á Íslandi sem enn framleiða fimm pundin. Í júní til nóvember eru að mestu framleiddar ferskar afurðir, bakflök og hnakkar. Undir lok ársins er síðan framleitt eftir markaðsaðstæðum og því hráefni sem fæst. Þá er ýmist framleitt ferskt eða frosið. Á þessu ári mun húsið vinna úr tæpum 3.000 tonnum af hráefni,“ segir Róbert.
Róbert segir að húsið fái afar gott hráefni sem að mestu komi frá Gullver NS. „Við erum svo heppin að fá meirihluta okkar hráefnis frá togaranum Gullver. Skipið kemur ávallt með úrvalshráefni að landi vegna þess að meðferð aflans um borð er til hreinnar fyrirmyndar. Við höfum einnig fengið góðan fisk frá Vestmannaeyjaskipunum Vestmannaey VE og Bergi VE og síðan hefur fiskur verið keyptur á mörkuðum þegar þarf að fylla upp í göt.“
Það starfa 35 manns í frystihúsinu á Seyðisfirði og segir Róbert að á meðal þeirra sé fólk sem hefur langa starfsreynslu, hafi jafnvel starfað í húsinu í 20 – 30 ár. Erlendir starfsmenn eru 24 eða 70% starfsmannafjöldans. Íslenskir starfsmenn eru 11 talsins. Fyrir utan starfsfólkið í húsinu er löndunargengið. Í löndunargenginu eru heimamenn, hörkumenn sem ávallt eru tilbúnir að skila sínu. Róbert segir að í frystihúsinu ríki góður starfsandi og þar sé fyrirmyndarliðsheild.