Á yfirstandandi síldarvertíð hefur mikið verið framleitt í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Frosnar afurðir hafa hrannast upp í frystigeymslum fyrirtækisins og var svo komið að þær voru nánast fullar, en þær rúma 18.000 tonn. Sífellt fara afurðir í gáma og er skipað út á Reyðarfirði en nauðsynlegt er á vertíðum sem þessari að frystiskip komi og lesti mikið magn. Koma slíkra skipa frestaðist og því hlóðust birgðir upp í geymslunum. Nú eru skipin hins vegar farin að koma og eru nánast samfelldar útskipanir í Norðfjarðarhöfn um þessar mundir. Heimir Ásgeirsson, verkstjóri í frystigeymslunum, segir að í nógu sé að snúast. „Við vorum að klára að skipa út 1.100 tonnum í skip sem fór í gær. Þá þegar var annað komið sem tekur 1.500 tonn. Það er verið að skipa út í það núna. Eftir helgina kemur síðan skip sem mun taka 2.000 tonn. Á sama tíma og þessar útskipanir fara fram fer frá okkur hellingur af gámum á Reyðarfjörð. Það er heilmikið að gerast,“ segir Heimir.
Heimasíðan hafði samband við Jóhannes Má Jóhannesson, sölustjóra hjá Icefresh, sem annast sölu á uppsjávarfiski fyrir Síldarvinnsluna. Jóhannes var spurður hver skýringin væri á því að birgðir hrönnuðust upp á Íslandi og frekar hægt gengi að flytja þær á markað. „Skýringin er alls ekki sú að illa gangi að selja afurðirnar. Það er mjög góð eftirspurn. Úkraínumarkaður er mikilvægur og það er magnað hve vel gengur að selja þangað. Vandamálið er hins vegar að koma vörunni á þetta stríðshrjáða svæði. Nú er ekki unnt að sigla til hafna við Svartahafið og því fer varan að mestu til Litháen og er flutt þaðan til Úkraínu. Reyndar hefur fiskur, sem á að fara til Úkraínu, einnig verið fluttur til Póllands að undanförnu. Vandinn er sá að frystigeymslur bæði í Litháen og Póllandi eru sneisafullar og snúið hefur reynst að koma vörunni til Úkraínu. Þess vegna hefur hægst á flutningum og safnast upp fiskur í frystigeymslum hér á landi,“ segir Jóhannes.