SVN logo2Eins og á síðasta ári getur starfsfólk Síldarvinnslunnar gert svonefndan samgöngusamning við fyrirtækið. Mun slíkur samningur gilda frá 1. júní til 31. október. Samgöngusamningurinn felur í sér að viðkomandi starfsmaður fer hjólandi eða gangandi í vinnuna a.m.k. þrjá daga í viku og að auki fær hann 5.000 kr. í samgöngustyrk og er sá styrkur skattfrjáls.
 
Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, segir samning af þessu tagi fela í sér ávinning bæði fyrir viðkomandi starfsmenn og fyrirtækið. Starfsmennirnir munu bæta heilsuna með aukinni hreyfingu auk þess sem þeir munu spara fyrir heimilin og stuðla að bættu umhverfi. Fyrirtækið mun njóta þess að starfsmennirnir verða heilbrigðari auk þess sem umferð mun minnka og minni þörf verður fyrir bílastæði við starfsstöðvarnar.
 
Starfsmenn sem vilja gera samgöngusamning við fyrirtækið geta snúið sér til starfsmannastjóra eða stjórnenda á viðkomandi vinnustað. Því miður gefst sjómönnum ekki kostur á samgöngusamningi vegna eðlis starfa þeirra, en þeir eru hins vegar hvattir til að hreyfa sig og bæta heilsuna eins og frekast er kostur.