Í morgun skilaði Samherji Smáey VE úr leigu en fyrirtækið hefur leigt skipið af Bergi-Hugin í Vestmannaeyjum sl. tvo mánuði. Smáey bar áður nafnið Vestmannaey VE. Ástæða þess að Samherji leigði skipið til veiða var seinkun á afhendingu nýs Harðbaks.
Smáey hefur verið seld Þorbirni hf. í Grindavík og mun skipið verða afhent nýjum eiganda í byrjun maímánaðar. Smáey er ísfisktogari, smíðaður í Gdynia í Póllandi fyrir Berg-Hugin árið 2007. Skipið er 485 brúttótonn að stærð, 28.9 m langt og 10.39 m breitt. Í skipinu er 699 hestafla Yanmar vél.
Smáey mun nú fara í slipp í Vestmannaeyjum þar sem skipið verður meðal annars málað í litum Þorbjarnar.