Börkur II NK hefur hafið makrílveiðar. Ljósm. Hákon Ernuson

Samherji hefur tekið Börk II NK á leigu og hélt skipið í Smuguna til makrílveiða á þriðjudagskvöld. Börkur II hefur legið í höfn í Neskaupstað frá því að nýr Börkur leysti hann af hólmi í byrjun júnímánaðar.

Í þessari fyrstu veiðiferð Barkar II, eftir gerð leigusamningsins, verða Síldarvinnslumenn um borð sem gjörþekkja skipið. Atli Rúnar Eysteinsson er skipstjóri, Helgi Freyr Ólason stýrimaður, Örvar Unnþórsson vélstjóri og Hjörvar Moritz Sigurjónsson matsveinn.

Rétt er að geta þess að Börkur II er til sölu og hafa ýmsar fyrirspurnir borist varðandi kaup á skipinu. Börkur II var smíðaður í Tyrklandi árið 2012 og hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar frá árinu 2014.