Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE héldu til veiða sl. fimmtudag og lönduðu báðir fullfermi í Vestmanneyjum í gær. Bæði skip fóru út strax eftir löndun og eru nú að reyna við karfa. Ráðgert er að þau landi á á morgun.
Heimasíðan sló á þráðinn til Egils Guðna Guðnasonar, skipstjóra á Vestmannaey, og spurði fyrst hvernig gengi á karfaveiðunum. „Æ, þetta er svolítið snúið. Við byrjuðum í Háfadýpinu en þar var lítið. Þá færðum við okkur í Reynisdýpið og þar var líka lítið að hafa. Nú erum við á Kötlugrunni og það er heldur rólegt hjá okkur. En þetta kemur hægt og bítandi. Við höfum daginn í dag og hluta af morgundeginum til að ná því sem okkur er ætlað og við hljótum að redda því. Við þurfum að töfra eitthvað fram. Annars er búinn að vera góður gangur í veiðunum hjá okkur og Bergey. Í síðasta túr vorum við á Ingólfshöfðanum og síðan á Mýragrunni í fínustu veiði. Almennt hefur fiskast vel að undanförnu ef ufsinn er undanskilinn. Hann er býsna leiðinlegur blessaður og erfitt að ná í hann. Þá getur stundum verið þolinmæðisverk að sækja karfa eins og reyndin er núna. Nú er þjóðhátíðarfrí framundan þó engin verði þjóðhátíðin. Það er langt síðan gefið var út að frí yrði yfir þjóðhátíðarhelgina og menn hafa gert ráðstafanir í samræmi við það þannig að fríinu verður vart breytt. Síðan verður haldið til veiða á ný á mánudaginn og þá verða allir hressir og endurnærðir,“ segir Egill Guðni.