Bjartur NK-121
 Bjartur NK-121

Eftirfarandi grein ritaði Magni Kristjánsson í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá því að fyrstu Japanstogararnir komu til landsins.  Bjartur NK er einn Japanstogaranna og Magni var fyrsti skipstjórinn á honum.

2. mars 1973 kom togarinn Bjartur NK til heimahafnar í Neskaupstað eftir 7 vikna siglingu frá Japan.  Bjartur var 1 af 10 systurskipum sem smíðuð voru í þessu fjarlæga landi.  En hví í ósköpunum að leita alla leið til Japan til að láta smíða þessi skip?  Það þurfti að sigla þeim um hálfan hnöttinn heim til Íslands til að koma þeim til brúks.  Við vissum að í Japan bjó mikið verkvit og að þeir voru góðir að búa til transistortæki og bíla.  En skuttogara, þar var allt á huldu.  En allt á sér aðdraganda og skýringar.  Rennum huganum rúm 40 ár aftur í tímann og förum stuttlega yfir þann þátt.

Árið 1971 hófst hin svokallaða skuttogaravæðing.  Síldveiðar lögðust af 1968 eftir samfellt góðæri um alllanga hríð.  Í hönd fóru erfiðir tímar.  Talsverður hluti síldarflotans fór til síldveiða í Norðursjó og gerði það bærilegt og stundum gott.  Öðrum var snúið til bolfiskveiða með ýmsum veiðarfærum.  Tvö af skipum Síldarvinnslunnar fóru á togveiðar ásamt fleirum.  En almennt höfðu menn ekki trú á þessu.  Sumir töldu þetta jafnvel hið mesta óráð og bentu á dapurleg endalok gömlu síðutogaranna.  Hafa ber í huga að á þessum árum voru höft og miðstýring á öllum sviðum, ekki síst í sjávarútvegi.  Skipakaupum var að miklu leyti handstýrt, fiskverð var ákveðið af opinberum aðilum.  Pólitíkusar voru allsstaðar með puttana.  Gengið? Eitt í dag og annað á morgun.  Af ástæðum sem ekki verða raktar hér var tímabil gömlu síðutogaranna að líða undur lok en togveiðar nótabátanna, sem margir voru nýlegir, gengu vel.  Til togveiða voru þeir auðvitað vanbúnir.  Óeinangraðar lestar, snurpuspil þeirra veikburða til togveiða og vélaraflið var vægast sagt af skornum skammti.  Annað var eftir því.  En það var mikil fiskgengd.  Ýmislegt annað var hagstætt, ekki síst að við áttum góða sjómenn sem höfðu sýnt að þeir áttu auðvelt með að aðlagast breyttum aðstæðum.  Ég var búinn að vera nokkuð mikið á togurum og leit á þessar togveiðar á bátunum sem millileik.

Magni Kristjánsson flytur ræðu við afhendinguna á Bjarti NK í Niigata.

Magni Kristjánsson flytur ræðu við afhendinguna

á Bjarti NK í Niigata.