Tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar bar sigur úr býtum
Eins og greint hefur verið frá efndi Síldarvinnslan til samkeppni um gerð minningareits á austasta hluta gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað sem eyðilagðist í snjóflóði 20. desember 1974. Átta tillögur bárust og voru þær metnar af dómnefnd sem skipuð var Guðnýju Bjarkadóttur skrifstofustjóra Síldarvinnslunnar, Björk Þórarinsdóttur stjórnarmanni í Síldarvinnslunni og Önnu Berg Samúelsdóttur umhverfisstjóra Fjarðabyggðar. Lauk nefndin störfum í gær og hefur niðurstaða hennar þegar verið kynnt verðlaunahöfum.
Niðurstaða nefndarinnar var samhljóma um að tillaga Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar hafi borið sigur úr býtum. Eins var það mat dómnefndarinnar að hluti tillögu Ólafíu Zoëga skyldi einnig hljóta verðlaun, annars vegar fyrir vel útfærða tengingu minningareitsins við hafið og hins vegar fyrir nafnið „Á milli flóðs og fjöru“ sem dómnefndin taldi hæfa minningareitnum framúrskarandi vel. Í ljósi þessa var peningaverðlaunum að upphæð 600.000 kr. skipt á milli tveggja verðlaunahafa. Í hlut Kristjáns Breiðfjörð Svavarssonar komu 400.000 kr og í hlut Ólafíu Zoëga 200.000 kr.
Tillaga Ólafíu Zoëga hlaut einnig verðlaun
Umsögn dómnefndar um vinningstillöguna er svohljóðandi: „Stílhrein útfærsla með sterka staðarvitund; endurtekin hringlaga form endurspegla lögun tanka fiskimjölsverksmiðja og gamla gufuketilsins. Öldur í grasi líkjast öldum skafrennings og brimi sjávar með skírskotun til snjóflóðsins og hafsins. Hér er ekki einungis um að ræða minningareit heldur fallegan áningastað, jafnt fyrir kyrrðarstund sem útivist.“