Síldarvinnslan og Austurbrú hafa gengið frá samningi um gerð nýrrar fræðsluáætlunar fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar. Ný starfsmannastefna Síldarvinnslunnar gerir ráð fyrir eflingu fræðslustarfs innan fyrirtækisins og er því mikilvægt að greina fræðsluþarfir og gera nýja áætlun um hvernig skal uppfylla þær. Verkefnið er styrkt af fræðslusjóðum fagfélaga, en Landsmennt, Sjómennt, Starfsafl og Menntasjóður VSSÍ koma að fjármögnun verkefnisins. Ráðgjafar Austurbrúar munu vinna greiningu og nýja fræðsluáætlun og styðjast við aðferðafræði sem nefnist „Markviss“. Aðferðafræðin byggir á ríku samráði vinnuveitanda og starfsmanna um samsetningu fræðsluáætlunar og verður skipaður sjö manna stýrihópur sem í sitja fulltrúar starfsmanna og stjórnenda. Tekin verða viðtöl og gerð viðhorfskönnun meðal starfsmanna til að tryggja að áætlunin verði sem nákvæmust. Fyrsti fundur stýrihópsins verður haldinn 15. ágúst og verður ný fræðsluáætlun tilbúin fyrir árslok.