Þrír af línubátum Vísis hf. í höfn

Samruni Síldarvinnslunnar og Vísis hf. í Grindavík hefur verið heimilaður af Samkeppniseftirlitinu. Það var í júlímánuði sl. sem Síldarvinnslan festi kaup á Vísi og nú hefur Samkeppnisstofnun fallist á samruna fyrirtækjanna.

Vísir er öflugt félag með langa sögu. Innan þess er mjög mikil þekking á vinnslu bolfisks og hefur fyrirtækið fjárfest í hátæknivinnslu í Grindavík. Þá rekur Vísir öfluga útgerð. Talið er að vinnsluna í Grindavík megi nýta betur. Það verður gert með auknu hráefni auk þess sem samnýta má tækni við bolfiskvinnslu og vinnslu á laxi en laxeldi er í mikilli uppbyggingu á suðvesturhorni landsins. Þá skapar staðsetning Vísis í nágrenni alþjóðaflugvallar mikla möguleika auk þess sem skipaflutningar eru tíðir frá nágrannahöfnum.

Vísir hf. rekur hátæknivinnslu í Grindavík

Að sögn Gunnþórs B. Ingvasonar, forstjóra Síldarvinnslunnar, liggur nú fyrir að ljúka öllum formlegheitum varðandi kaupin á Vísi. Þá þarf að ákveða hvernig starfsemi fyrirtækjanna verður samþætt en í því sambandi verður farið í gegnum starfsemina frá veiðum til markaðssetningar.

Þegar kaup Síldarvinnslunnar á Vísi voru tilkynnt hinn 11. júlí sl. kom eftirfarandi fram í fréttatilkynningu: Seljendur og kaupendur eru sammála um að með þessum viðskiptum sé verið að styrkja stöðu beggja félaga til framtíðar. Vísir hf. verður rekið sem dótturfélag og mun starfsemin í Grindavík verða öflugri og framsæknari og ýta undir samkeppnishæfni og sjálfbærni til lengri tíma litið í sátt við umhverfið. Þá mun alþjóðlegt sölu- og markaðsstarf félaganna eflast. Markmið Síldarvinnslunnar hf. er nú sem endranær að hámarka verðmæti og mun þekking og reynsla starfsfólks og stjórnenda Vísis hf. stuðla að því.