Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.

Hjónin Ragnhildur Tryggvadóttir og Sigurjón Mikael Jónuson

Hjónin Sigurjón Mikael Jónuson og Ragnhildur Tryggvadóttir eru búsett í Neskaupstað og starfa bæði hjá Síldarvinnslunni. Sigurjón er fæddur og uppalinn á staðnum en Ragnhildur fluttist þangað 10 ára gömul. Þau telja að það hafi margvíslega kosti að starfa hjá sama fyrirtæki þó störf þeirra séu afar ólík.

Sigurjón segist hafa hafið störf hjá Síldarvinnslunni á táningsaldri og hann hafi starfað hjá fyrirtækinu samfellt ef undan eru skilin fjögur ár sem hann sinnti störfum hjá Eimskip og nokkur ár þegar hann rak sína eigin vörubifreið. „Ég var 13 eða 14 ára gamall þegar ég hóf að vinna í skreið hjá Síldarvinnslunni og síðar lá leiðin á fjölmarga aðra vinnustaði innan fyrirtækisins. Ég hef starfað í saltfiskverkuninni, í bátastöð Dráttarbrautarinnar, í gamla frystihúsinu, í fiskimjölsverksmiðjunni, við fisklandanir, í fiskiðjuverinu, í frystigeymslunum auk þess sem ég var til sjós um tíma á mörgum Síldarvinnsluskipanna. Síðustu árin hef ég svo starfað í landi, í þjónustu við útgerðina. Það er fjölbreytt starf og skemmtilegt og í því þarf ég að vera í samskiptum við fjölda manns. Samskiptin við sjómennina eru mikil og eins við fjölmarga aðra og þá ekki síst við starfsmenn flutningafyrirtækja. Ég hef alltaf verið mikill Síldarvinnslumaður og mér líkar vel að vera í vinnu hjá fyrirtækinu. Ég nýt þess líka að þekkja vel til fyrirtækisins, ekki síst vegna þess hvað ég hef starfað víða innan þess. Staðreyndin er sú að ég hef aldrei enst mjög lengi í störfum hjá öðrum en Síldarvinnslunni. Ég reyndi meira að segja einu sinni að flytja til Reykjavíkur og vinna þar. Það voru mistök og ég gafst upp eftir örfáa mánuði og kom aftur heim.“

Ragnhildur hóf störf sem launafulltrúi á skrifstofu Síldarvinnslunnar árið 2002 og hefur starfað þar síðan. „Mitt verkefni á skrifstofu Síldarvinnslunnar er að reikna og halda utan um laun starfsfólks. Þarna er um að ræða laun alls starfsfólks Síldarvinnslunnar í landi og á sjó og einnig laun starfsfólks Fóðurverksmiðjunnar Laxár á Akureyri. Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt og ég nýt þess að gegna því. Einn af stóru kostunum við þetta starf er að ég er í samskiptum við fólk, bæði hér á skrifstofunni og á öllum vinnustöðum fyrirtækisins. Þessi samskipti eru yfirleitt afskaplega ánægjuleg og lærdómsrík og ég vildi ekki vera án þeirra.“